top of page

Brydebúð

Víkurbraut 28


Brydebúð er ein af þremur fasteignum Kötlusetur. Hún á sér langa sögu og er fyrsta byggingin sem reis varanlega á Víkursandi jafnframt því að vera elsta timburhúsið sem stendur á Suðurlandi fyrir utan Húsið á Eyrarbakka. Sagan hússins hófst árið 1829 þegar P.C. Knudtzon stórkaupmaður fékk útmælda verslunarlóð í Vestmannaeyjum og heimild til að hefja þar verslunarrekstur.
P.C. Knudtzon fékk mág sinn Th. Thomsen, kaupmann í Hafnarfirði, í félag við sig um verslunarreksturinn í Eyjum og á árunum 1830 og 1831 byggðu þeir þar íbúðarhús fyrir verslunarstjóra, stórt verslunar og vörugeymsluhús, annað minna vörugeymsluhús og fiskhús. Verslun sína í Vestmannaeyjum nefndu þeir Godhaab og það nafn festist einnig við íbúðarhúsið.[1]


Þann 11. ágúst 1831 lét sýslumaður framkvæma skoðunar- og matsgerð á lóð og húsum hinnar nýju Godthaabsverslunar. Í matsgerð sinni segir hann stærstu bygginguna talda vera byggða úr góðu timbri og virt á 2800 ríkisdali. Húsið er sagt 30 álnir á lengd og 15 á breidd, þakið tvöfalt að sunnan og sölubúð í austurenda.[2]
Pétur Bryde keypti eignir Godhaabverslunar í Vestmannaeyjum árið 1894 en hóf þar aldrei verslunarrekstur. Þess í stað lét hann taka niður gömlu sölubúðina frá 1831 og flytja til Víkur í Mýrdal. Þar reis úr viðum hennar það hús sem í daglegu tali er nefnt Brydebúð.
Verslunarhús Brydeverslunar ásamt járnbraut sem notuð var til vöruflutninga / Ljósmyndari: Ólafur Jónsson


Á gömlum myndum úr Eyjum má sjá að ekki hafa orðið miklar breytingar á útliti hússins við flutninginn. Kvisturinn sem nú setur svip á húsið, var hins vegar ekki byggður fyrr en löngu síðar, eftir 1914.[3] Það ár seldi Bryde húsið nýjum eigendum. Húsið er samt nokkru lengra en það var upphaflega eða um 42 álnir (26,54 metrar) í stað 30 álna samkvæmt skoðunargerðinni frá 1831. Ekki er ólíklegt að faktorsíbúðinni, sem var í vesturendanum, hafi verið bætt við, þar sem engin íbúð var í húsinu meðan það stóð í Eyjum.


Á manntalsþingi sem haldið var í Vík 16. Júní 1915, var m.a. þinglýst afsali dagsettu 21. september. Þorsteinn Þorsteinsson keypti þá eignir J.P.T. Bryde í Vík og rak ásamt Jóni syni sínum verslunina Þorsteinsson & Co allt til ársins 1926 er Kaupfélag Skaftfellinga tók við eignum félagsins. Afsalið fyrir húseigninni var dagsett 15. maí 1926.[4]
Verslunarhús Kaupfélags Skaftfellinga / Ljósmyndarar: Sigurjón Kjartansson og Björgvin Salómonsson
 
Verslun Kaupfélagsins var rekin í Brydebúð allt til ársins 1975 þegar flutt var í nýtt verslunarhús austar í þorpinu. Margvíslegar breytingar voru gerðar á Brydebúð meðan húsið var í eigu Kaupfélags Skaftfellinga. Þegar Kaupfélagið keypti Brydebúð voru liðin 30 ár frá því húsið var reist í Vík. Litlar sem engar breytingar höfðu verið gerðar á því fyrir utan að stór kvistur var settur á húsið árið 1915 og sérstök íbúð innréttuð í honum. Nokkru eftir að Kaupfélagið eignaðist húsið voru gerðar allverulegar breytingar á innréttingum hússins. Skrifstofurnar sem voru norðan til voru þá fluttar í suðurhlutann þar sem áður var vörugeymsla en hún flutt í gamla skrifstofuplássið.[5]
Um leið og skrifstofurnar voru færðar til með þessum hætti var kolakynt miðstöðvarhitun líka sett í húsið en nokkru fyrir 1950 tók olía við af kolum sem hitagjafi.[6]


Eins og áður voru skrifstofur og vörugeymslur um miðbik hússins, sölubúðin í austurendanum og sjö herbergja íbúð á tveimur hæðum í vesturendanum.[7] Í lýsingu erindreka SÍS á húsnæðinu, undirritaðri 7. mars 1936, segir að verslunarhúsnæðið sé raflýst, með miðstöðvarhitun og vatnsleiðslu og rafmagn notað til suðu. Innréttinging í búðinni er talin gamladags og þarfnist viðgerða.[8] Þarna var stærð hússins sögð 26,5 x 8,75 metrar og kemur það heim að kalla við nútímamælingar.


Á árunum 1948 og 1949 voru gerðar mjög verulegar breytingar á öllum innréttingum í Brydebúð. Sölubúðin var þá stækkuð um skrifstofuplássið, skrifstofurnar færðar í kaupfélagsstjóraíbúðina á neðri hæð í verstur-enda. Kvistbyggingin og vesturhluti risæðarinnar voru endurbyggð og þar innréttuð íbúð fyrir kaupfélagsstjóra. Þessum framkvæmdum lauk í maímánuði 1949 og hafði þá einnig verið steyptur eldtraustur klefi fyrir verslunarbækur og verðmæt skjöl félagsins.[9] Eitt af því sem hvarf úr sögunni við þessa miklu breytingu á innviðum hússins var rennan sem notuð hafði verið til að flytja sykur og kaffibaunir ofan af lofti í skúffur innan við búðarborðið.[10]tvö herbergi á neðri hæð fengu að halda sér við allar þessar umbyltingar, „gamla eldhúsið og svefnstofa“.[11]


Kaupfélag Skaftfellinga hætti rekstri í Brydebúð árið 1981. Húsnæðið var þá leigt Prjónastofunni Kötlu sem rak starfesemi í húsinu allt til ársins 1986 er reksturinn komst í þrot. Saumastofan Gæði var þá stofnuð og hélt rekstrinum áfram með svipuðu sniði í húsinu til ársins 1992 en þá varð fyrirtækið gjaldþrota. Víkurprjón tók við rekstri saumastofunnar og rak starfsemi í Brydebúð til ársins 1995.
 
Brydebúð í janúar 1997 / Ljósmynd: DV, 15. janúar 1997
 
Árið 1996 keypti Mýrdalshreppur húsið af Búnaðarbanka Íslands sem hafði eignast húsið við nauðungarsölu. Sveitarstjórn gaf þá nýstofnuðu félagi húsið, Menningarfélaginu um Brydebúð, sem hafði það að markmiði að endurbyggja húsið í sem næst upprunalegri mynd. Endurbygging hússins hefur gengið vel með fjárstuðningi einstaklinga, fyrirtækja og opinberra aðila. Eins og áður segir komst húsið í eigu Kötlusetur ses árið 2010.


Frá því í byrjun júní 2000 hefur húsið verið aðgengilegt almenningi með sýningum s.s. um mannlíf og náttúru í Mýrdal, skipströnd við Suðurströndina og ævi Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu. Þá var opnað kaffihúsið Halldórskaffi árið 2000 er hlaut nafnið í virðingarskyni við Halldór Jónsson athafnamann í Suður-Vík.
Samtals er húsið 568 m2 að flatarmáli með sölum og veitingaaðstöðu á neðri hæð en íbúð og litlum sal á efri hæð. Til stendur að Brydebúð verði áfram menningar- og listamiðstöð í Mýrdal. Í ófyrirsjánlegri framtíð verður þar jafnframt meginþunginn í starfsemi Kötluseturs. Ætlunin er að einfalda sýningahald í húsinu og einblína meira á eldstöðina Kötlu. Sú sýning mun varpa ljósi á hið stórfenglega náttúrufar Mýrdalsins með Kötlu í miðpunkti en flétta um leið inn í hana brot úr sögu Mýrdælinga.


Brydebúð í júlí 2010


[1] Þorsteinn Þ. Víglundsson, Blik 31. árg., bls. 167-171
[2] Þorsteinn Þ. Víglundsson, Blik 31. árg.,, bls. 168
[3] Ólafur Jónsson, Vík (f. 1895), viðtal K.Ó. við Ólaf 1987
[4] Veðmálabók fyrir Vestur-Skaftafellssýslu, löggilt 16.10.1916, bls. 383-385.
[5] Einar Erlendsson og Magnús Finnbogason: Drög að sögu Kaupfélags Skafgrellinga, handrit frá 1950, bls. 20
[6] Einar Erlendsson og Magnús Finnbogason: Drög að sögu Kaupfélags Skafgrellinga, handrit frá 1950, bls. 20
[7] Gögn SÍS um K.S. „Athugasemdir við fjárhagsreikning K.S., Vík pr. 31.12.1934“ undirritað af Ragnari Ólafssyni 7.3.1936
[8] Gögn SÍS um K.S. „Athugasemdir við fjárhagsreikning K.S., Vík pr. 31.12.1934“ undirritað af Ragnari Ólafssyni 7.3.1936
[9] Einar Erlendsson og Magnús Finnbogason: Drög að sögu Kaupfélags Skafgrellinga, handrit frá 1950, bls. 20
[10] Sigurður Hallgrímsson. Viðtal K.Ó. við hann 3.12.1989.
[11]Einar Erlendsson og Magnús Finnbogason: Drög að sögu Kaupfélags Skafgrellinga, handrit frá 1950, bls. 20

Skaftfellingsbúð

Víkurbraut 17

 

Skaftfellingsbúð að Víkurbraut 17 heyrir undir Kötlusetur. Eignin er um 390 m2 stálgrindarhús sem reist var árið 1958 og þjónaði áður sem pakkhúss Kaupfélags Skaftfellinga auk þess sem þar var rekið vélaverkstæði. Gaflar hússins eru úr járnbentri steinsteypu sem og gólfplata og sökklar. Kaupfélagið rak starfsemina í húsinu á meðan það var starfandi. Árið 2001 flutti listakonan Sigrún Jónsdóttir vélbátinn Skaftfelling til Víkur og var honum komið fyrir í húsinu. Var þá tekið úr gólfplötu þess. Mýrdalshreppur átti þá húsið en lagði það inn í Kötlusetur í lok árs 2010.


Húsið er gegnt Brydebúð og unnið er að lagfæringu á því samkvæmt tillögum Arinbjörns Vilhjálmssonar arkitekts, þ.e. bæði á þaki og veggjum eins og þarf. Stefnt er að því að Skaftfellingur verði sýnilegur gestum gegnum gler á árinu 2013.


Skaftfellingur er stórkostlegur sýningargripur eins og hann er, og hér er ekki gert ráð fyrir að endurbyggja hann svo neinu nemi, aðeins að hreinsa og snurfusa hér og þar. Auk Skaftfellings er stefnt að því að setja upp kalda sýningu þar sem fjallað er um baráttuna við sjóinn og útræði frá hafnlausri strönd.


Skaftfellingsbúð í nóvember 2011

Halldórsverslun

Víkurbraut 21


Fasteignin að Víkurbraut 21 sem í daglegu tali er nefnd Halldórsbúð er ein af fasteignum Kötluseturs. Húsið var reist árið 1903 og þar rak Halldór Jónsson (f. 10.3.1857, d. 27.01.1926) bóndi í Suður-Vík verslun sína. Synir Halldórs tóku við eftir andlát föður síns og ráku hana allt til ársins 1950. Húsið var tveggja hæða verslunarhús, stórt á þeirra tíma mælikvarða, með vel innréttaðri búð. Yfirsmiður við bygginguna var Erasmus Elíasson snikkari í Þykkvabæ, er fluttist til Reykjavíkur að smíði lokinni. Halldór hafði áður haft vörur sínar í Félagshúsinu sem stóð nokkru vestar, í skúr sem stóð við verslunarhúsið og í Suður-Vík. [1]


Verslunin var í sjálf í austurhluta hússins og dyrnar inn í hana milli tveggja austustu glugganna á suðurhlið. Í vesturendanum og á loftinu öllu var vörugeymsla.[2]


Verslun Halldórs Jónssonar í Vík (Halldórsbúð)
Halldór hélt áfram byggingaframkvæmdum við húsið og reisti pakkhús árið 1904 norðan við búðina en tveimur árum síðar reis þar annað geymsluhús sem ætlað var fyrir kol og salt. Á efri árum Halldórs og á meðan synir hans ráku verslunina voru skrifstofur í skúrnum sem stendur við norðurhlið búðarinnar að austan, milli búðar og pakkhúss.[3]


Allan þann tíma sem Halldórsverslun var í rekstri, í 67 ár, var hún helsta innlenda kaupmannaverslunin í héraðinu. Elstu viðskiptavinirnir höfðu á unga aldri kynnst fólki er lifði af Móðuharðindin. Hinir yngstu sem lögðu leið sína í verslunina voru börn íslenska lýðveldisins. Saga slíks fyrirtækis er í litlu byggðarlagi samfléttuð sögu fólksins, sem þar lifði á þessu tímaskeiði.


Viðskiptasvæði Halldórsverslunar og annarra verslana í Vík kringum síðustu aldamót var öll Vestur-Skaftafellssýsla og auk þess meginhluti Eyjafjallasveitar í Rangárvallasýslu. Einnig sóttu Öræfingar nokkuð verslun til Víkur upp úr aldamótum.[4]


Hús Verslunarfélagsins, áður Halldórsbúð skömmu eftir eigendaskipti 1951 / Ljósmyndari: Vigfús Sigurgeirsson


Verslunarfélag Vestur-Skaftfellinga er stofnað var árið 1950 tók í ársbyrjun 1951 við öllum rekstri Halldórsverslunar. Í gömlu Halldórsbúð var verslun félagsins fyrst opnuð þann 6. janúar á því ári.[5] Í upphafi var húsnæðið aðeins tekið á leigu[6] en á árunum 1955 og 1957 keypti félagið öll hús Halldórsverslunar. Fyrra afsalið var undirritað 15. janúar 1955 en hið síðara 30. október 1957.[7]


Verslunarfélagið rak sína starfsemi í hinum gömlu húsum Halldórsverslunar í nær 21 ár en flutti þaðan í desember 1971 í nýtt verslunarhús. Prjónastofan Katla tók þá fljótlega gömlu Halldórsbúð á leigu og keypti svo húsið nokkru síðar. Prjónastofan var starfrækt í vesturenda hússins til ársins 1981 er hún fluttist í Brydebúð (sjá hér að ofan) og fékk þá Skálafell hf., fyrirtæki sem framleiddi rafmagnstöflur, afnot af Halldórsbúð í tvö ár eða því sem næst. Þegar Prjónastofan Katla varð gjaldþrota árið 1986 komst húsið í eigu Samvinnubankans.[8] Verslunin Nýland hf. keypti siðan húsið af bankanum og notaði það fyrir pakkhús. Er Nýland var lýst gjaldþrota seint á árinu 1988 komst húsið aftur í eigu Samvinnubankans og var þá um skeið leigt flutningafyrirtækinu Böggli sf.


Þann 28. janúar 1991 keypti Bergur Örn Eyjólfs vélvirki húsið og rak þar véla og viðgerðarverkstæði.[9] Bergur hafði aðstöðu í húsinu til dauðadags árið 1997. Eftir það hefur engin starfsemi verið í húsinu. Mýrdalshreppur keypti húsið ári síðar af ekkju Bergs. Eins og áður segir lagði Mýrdalshreppur Kötlusetri til húsið árið 2010.
Halldórsbúð í nóvember 2011
Húsið er um 300 m2 að gólffleti en í hluta þess er 5 metra lofthæð sem býður upp á ýmsa möguleika. Hugmyndir hafa verið uppi um að snúa húsinu um 90°. Tilvalið væri að segja verslunarsögu Vestur-Skaftfellinga í hluta hússins en hún er bæði löng og merk. Þá væri hægt að hugsa sér að í framtíðinni flyttist Halldórskaffi úr Brydebúð, „heim“ í Halldórsbúð.
 
Innrétting úr Halldórsbúð sem enn er að finna í húsinu.
[1] Eyjólfur Guðmundsson. Merkir Mýrdælingar, bls. 118-119
[2] Sigurður Gunnarsson, viðtal K.Ó. við Sigurð 24.7.1986
[3] Sigurður Gunnarsson, viðtal K.Ó. við Sigurð 24.7.1986
[4] Kjartan Ólafsson 1987, bls. 243
[5] Morgunblaðið 7.1.1951
[6] Fundargerðir V.V.S., fundargerð stofnfundar Skaftártungudeildar 8.6.1951.
[7] Veðmálabækur Vestur-Skaftafellssýslu V, skjal númer 2323, afsal dagsett 15.1.1955, og VII, skjal númer 31555, kaupsamningur og afsal, bæði dagsett 30.10.1957
[8] Runólfur Sæmundsson. Viðtal K.Ó. við hann 2.12.1989
[9] Sigurður Gunnarsson sýslumaður. Viðtal K.Ó. Við hann 15.3.1993

bottom of page