top of page

Halldórsbúð

Halldórsbúð

Víkurbraut 21 sem í daglegu tali er nefnd Halldórsbúð var reist árið 1903. Þar rak Halldór Jónsson (f. 10.3.1857, d. 27.01.1926) bóndi í Suður-Vík verslun sína. Synir Halldórs tóku við eftir andlát föður síns og ráku hana allt til ársins 1950. Húsið var tveggja hæða verslunarhús, stórt á þeirra tíma mælikvarða, með vel innréttaðri búð. Yfirsmiður við bygginguna var Erasmus Elíasson snikkari í Þykkvabæ, er fluttist til Reykjavíkur að smíði lokinni. Halldór hafði áður haft vörur sínar í Félagshúsinu sem stóð nokkru vestar, í skúr sem stóð við verslunarhúsið og í Suður-Vík. [1]

Verslunin var í sjálf í austurhluta hússins og dyrnar inn í hana milli tveggja austustu glugganna á suðurhlið. Í vesturendanum og á loftinu öllu var vörugeymsla.[2]

Verslun Halldórs Jónssonar í Vík (Halldórsbúð)

Halldór hélt áfram byggingaframkvæmdum við húsið og reisti pakkhús árið 1904 norðan við búðina en tveimur árum síðar reis þar annað geymsluhús sem ætlað var fyrir kol og salt. Á efri árum Halldórs og á meðan synir hans ráku verslunina voru skrifstofur í skúrnum sem stendur við norðurhlið búðarinnar að austan, milli búðar og pakkhúss.[3]

Allan þann tíma sem Halldórsverslun var í rekstri, í 67 ár, var hún helsta innlenda kaupmannaverslunin í héraðinu. Elstu viðskiptavinirnir höfðu á unga aldri kynnst fólki er lifði af Móðuharðindin. Hinir yngstu sem lögðu leið sína í verslunina voru börn íslenska lýðveldisins. Saga slíks fyrirtækis er í litlu byggðarlagi samfléttuð sögu fólksins, sem þar lifði á þessu tímaskeiði.

Viðskiptasvæði Halldórsverslunar og annarra verslana í Vík kringum síðustu aldamót var öll Vestur-Skaftafellssýsla og auk þess meginhluti Eyjafjallasveitar í Rangárvallasýslu. Einnig sóttu Öræfingar nokkuð verslun til Víkur upp úr aldamótum.[4]

 

Hús Verslunarfélagsins, áður Halldórsbúð skömmu eftir eigendaskipti 1951 / Ljósmyndari: Vigfús Sigurgeirsson

Verslunarfélag Vestur-Skaftfellinga er stofnað var árið 1950 tók í ársbyrjun 1951 við öllum rekstri Halldórsverslunar. Í gömlu Halldórsbúð var verslun félagsins fyrst opnuð þann 6. janúar á því ári.[5] Í upphafi var húsnæðið aðeins tekið á leigu[6] en á árunum 1955 og 1957 keypti félagið öll hús Halldórsverslunar. Fyrra afsalið var undirritað 15. janúar 1955 en hið síðara 30. október 1957.[7]

Verslunarfélagið rak sína starfsemi í hinum gömlu húsum Halldórsverslunar í nær 21 ár en flutti þaðan í desember 1971 í nýtt verslunarhús. Prjónastofan Katla tók þá fljótlega gömlu Halldórsbúð á leigu og keypti svo húsið nokkru síðar. Prjónastofan var starfrækt í vesturenda hússins til ársins 1981 er hún fluttist í Brydebúð (sjá hér að ofan) og fékk þá Skálafell hf., fyrirtæki sem framleiddi rafmagnstöflur, afnot af Halldórsbúð í tvö ár eða því sem næst. Þegar Prjónastofan Katla varð gjaldþrota árið 1986 komst húsið í eigu Samvinnubankans.[8] Verslunin Nýland hf. keypti siðan húsið af bankanum og notaði það fyrir pakkhús. Er Nýland var lýst gjaldþrota seint á árinu 1988 komst húsið aftur í eigu Samvinnubankans og var þá um skeið leigt flutningafyrirtækinu Böggli sf.

Þann 28. janúar 1991 keypti Bergur Örn Eyjólfs vélvirki húsið og rak þar véla og viðgerðarverkstæði.[9] Bergur hafði aðstöðu í húsinu til dauðadags árið 1997. Eftir það hefur engin starfsemi verið í húsinu. Mýrdalshreppur keypti húsið ári síðar af ekkju Bergs. Eins og áður segir lagði Mýrdalshreppur Kötlusetri til húsið árið 2010.
Halldórsbúð í nóvember 2011

Húsið er um 300 m2 að gólffleti en í hluta þess er 5 metra lofthæð sem býður upp á ýmsa möguleika. Hugmyndir hafa verið uppi um að snúa húsinu um 90°. Tilvalið væri að segja verslunarsögu Vestur-Skaftfellinga í hluta hússins en hún er bæði löng og merk. Þá væri hægt að hugsa sér að í framtíðinni flyttist Halldórskaffi úr Brydebúð, „heim“ í Halldórsbúð.

 

Innrétting úr Halldórsbúð sem enn er að finna í húsinu.
[1] Eyjólfur Guðmundsson. Merkir Mýrdælingar, bls. 118-119

[2] Sigurður Gunnarsson, viðtal K.Ó. við Sigurð 24.7.1986

[3] Sigurður Gunnarsson, viðtal K.Ó. við Sigurð 24.7.1986

[4] Kjartan Ólafsson 1987, bls. 243

[5] Morgunblaðið 7.1.1951

[6] Fundargerðir V.V.S., fundargerð stofnfundar Skaftártungudeildar 8.6.1951.

[7] Veðmálabækur Vestur-Skaftafellssýslu V, skjal númer 2323, afsal dagsett 15.1.1955, og VII, skjal númer 31555, kaupsamningur og afsal, bæði dagsett 30.10.1957

[8] Runólfur Sæmundsson. Viðtal K.Ó. við hann 2.12.1989

[9] Sigurður Gunnarsson sýslumaður. Viðtal K.Ó. Við hann 15.3.1993

 

bottom of page